Hótel Örk logo.
Check In Date:
Nights:    Adults per room:

Um Hveragerði

Velkomin í blómstrandi bæinn Hveragerði

Starfsfólk Hótel Arkar er ávallt reiðubúið til þess að aðstoða þig við að skipuleggja skemmtilega daga í nánasta umhverfi Hveragerðis og nágrennis.  Hér til hliðar má sjá yfirlit yfir það sem stendur til boða.

Staðsett aðeins 45 km frá Reykjavík.  Í Hveragerði er margt markvert að sjá og gera. Byrja má daginn á hverasvæðinu þar sem hægt er að fræðast um mismunandi tegundir hvera en þeir eru einkar fjölbreyttir á svæðinu. Hveragerðiskirkju er vert að skoða en hún gnæfir yfir gestum bæjarins. Rétt hjá kirkjunni er Sandhólshverinn. Handan hverasvæðisins eru skáldagöturnar Frumskógar og Bláskógar þar sem mörg af stórskáldum þjóðarinnar bjuggu á árdögum byggðar í Hveragerði. Í miðbæ Hveragerðis er svo lystigarðurinn en þar er notalegt að snæða nesti, fara í fótabað í ylvolgri ánni og dást að Reykjafossi. Sé gengið yfir göngubrúna í lystigarðinum og upp brekkuna handan árinnar er komið að sundlauginni Laugaskarði þar sem einkar ánægjulegt er að ljúka deginum í sjóðheitum pottunum eða heilsusamlegu gufubaðinu áður en haldið er til baka á hótelið til að njóta kvöldverðar.

Sýningin Skjálftinn 2008.  Kl. 15:45 þann 29. maí 2008 varð öflugur jarðskjálfti suðaustur af Hveragerði. Stærð hans var 6,3 á Richterskvarða. Einhver slys urðu á fólki en engin alvarleg. Almannavarnir lýstu þegar yfir hæsta viðbúnaðarstigi í Hveragerði, á Selfossi og í nágrenni vegna hugsanlegra eftirskjálfta. Töluverðar skemmdir urðu á þeim svæðum sem næst lágu upptökunum, einkum innandyra þegar húsgögn og aðrir lausamunir köstuðust til. Skriður féllu úr fjallshlíðum og hveravirkni jókst. Á sýningunni er gerð grein fyrir orsökum og afleiðingum jarðskjáftans en þar má finna reynslusögur íbúa, upplýsingar um áhrif skjálftans á hús, nánasta umhverfi og innbú bæjarbúa. Á sjónvarpsskjáum má sjá upptökur úr eftirlitsmyndavélum, ljósmyndir frá bæjarbúum og upplýsingar frá Jarðskjálftamiðstöð Háskóla Íslands. Hægt er að upplifa jarðskjálfta í jarðskjálftahermi sem er yfir 6 á Richter. Jarðskjálftasprunga sem fannst við byggingu hússins 2003 er upplýst og á sýningunni. Aðgangur að sýningunni er ókeypis en greiða þarf fyrir aðgang að jarðskjálftaherminum.

Sandhólshver.  Við horn Hverahlíðar og Þverhlíðar norðan kirkjunnnar er hver með sjóðandi vatni sem nefnist Sandhólshver. Hann er á sprungu sem liggur í gegnum Hverasvæðið og norður um Hverahvamm upp í Reykjafell. Sandhólshver myndaðist í Suðurlandsskjálftanum árið 1896 sem var um 6-7 stig á Richter. Áður var þar einungis lítið hveraauga en í umbrotunum varð hverinn til á einni nóttu og bar gufustrókinn eins hátt og Reykjafjall. Krafturinn var svo mikill að grjót og jarðvegur þeyttist tugi metra í loft upp og grastorfur flugu alla leið upp á Hamar. Hiti í honum miðjum er núna um 94°C en vatnsborð hans hefur lækkað síðustu árin. Sandhólshver var lengi notaður til hitunar fyrir nærliggjandi hús. Ofnar voru látnir ofan í heitt vatnið og rör frá þeim leidd til og frá húsunum. Þannig myndaðist lokuð hringrás, vatnið hitnaði í ofnunum, steig upp eftir rörunum og um miðstöðvarkerfi húsanna. Neysluvatn var líka leitt í gegnum ofn í hvernum til hitunar. Einnig var hveravatnið leitt eftir rörum í þar til gerðar þrær við húsin sem stóðu neðar. Þar var neyslu- og miðstöðvarvatn hitað og notað á sama hátt.

Reykjadalur.  Gönguferð um Reykjadal er mjög skemmtileg. Gangan hefst í Rjúpnabrekkum og er nokkuð stutt. Hverir og heitar laugar eru á leiðinni og hægt er að baða sig í laugunum. Engin sérstök aðstaða er til fataskipta. Rétt er að fara varlega þar sem að varasöm hverasvæði eru á svæðinu.

Suðurland.  Hótel Örk er frábærlega staðsett með tilliti til þess að skoða Suðurland. Frá hótelinu er stuttur akstur á margar helstu náttúruperlur landsins. Það er aðeins um 50 mínútna akstur í Bláa Lónið, 40 mínútur í Gullna hringinn og um 40 mínútur að hinum glæsilegu fossum Seljalandsfossi og Skógarfossi. Þá er einnig stutt að fara á Draugasetrið á Stokkseyri.

Comments are closed.